Umferðaröngþveiti í miðbæ Selfoss

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umferðaröngþveiti var í miðbæ Selfoss á öðrum tímanum í dag þar sem gríðarlega löng bílaröð myndaðist að COVID-sýnatöku í bílakjallara Kjarnans.

Röðin náði eftir öllum Selfossvegi, inn á Kirkjuveg og út á Eyraveg, sem varð til þess að Suðurlandsvegur stíflaðist á Tryggvatorgi og náði bílaröðin frá Ölfusárbrú langleiðina að bæjarmörkunum við Biskupstungnabraut.

Lögreglan kom á vettvang og lokaði hluta Kirkjuvegar, þannig að nú liggur bílaröðin eftir Selfossvegi og Þóristúni út á Eyraveg.

Ekki hafa verið vandræði í umferðinni hingað til, eftir að skimunin var færð í bílakjallarann í október í fyrra, og má ráða af þessu að í dag sé langstærsti skimunardagurinn í langan tíma á Selfossi.

Fyrri greinÖll börn á tveimur deildum í sóttkví
Næsta greinEmil og Ragnar framlengja