Umferð á Suðurlandi eykst á milli ára

Umferð á Suðurlandi í mars jókst um 5,4% miðað við mars í fyrra. Aukningin er 5,9% á Hellisheiði en 5,5% vestan við Hvolsvöll. Umferð um Mýrdalssand dróst hinsvegar saman um 6,5% á sama tímabili.

Meðalfjöldi ökutækja á hverjum sólarhring á Hellisheiði var 4.617 í mars 2012 á móti 4.358 árið 2011. Mestur varð fjöldinn árið 2008, þegar 6.129 bílar fóru um heiðina að meðaltali á hverjum sólarhring. Um veginn vestan Hvolsvallar fóru 1.422 bílar í síðasta mánuði, en þeir voru 1.348 í mars í fyrra.

Mesti fjöldi bíla sem farið hefur þar um í marsmánuði á sl. sex árum var árið 2010, þegar að meðaltali 2.156 bílar fóru þar um á degi hverjum, en þá jókst umferð verulega vegna eldgossins á Fimmvörðuhálsi.

Fyrri greinÓlafur Oddur skjaldarhafi í fjórða sinn
Næsta greinRólegt hjá lögreglu