Umferð um Hellisheiði dregst saman um 11,6%

Umferðin um nýliðna helgi reyndist 7,7% minni en um sömu helgi í fyrra á sex talningastöðum út frá höfuðborginni. Umferð um Hellisheiði dregst saman um 11,6% á milli ára.

Umferðin frá höfuðborginni um Suðurlandsveg minnkar um 9% á milli ára en rúmlega 6% færri aka norður í land frá höfuðborginni, samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar. Eru hér bornar saman sömu helgar á árunum 2010 og 2011.

Það sem af er sumri hefur meðalumferð um helgar á Hringvegi á þessum sex mælistöðum dregist saman um 5,8%.

Mjög dró úr umferð um síðustu helgi (22. – 24. júlí) borið saman við helgina þar á undan (15. – 17. júlí). Reynslan sýnir að um næstu helgi (verslunarmannahelgina, föstudagur – mánudags) verði heldur meiri umferð en um síðustu helgi, segir í frétt Vegagerðarinnar.