Umfangsmikil verkefni framundan hjá nýrri bæjarstjórn

Bæjarfulltrúar D-listans (f.v.) Sveinn Ægir Birgisson, Fjóla Kristinsdóttir, Bragi Bjarnason, Brynhildur Jónsdóttir og Helga Lind Pálsdóttir. Á myndina vantar Kjartan Björnsson, sem bað fyrir bestu kveðjur frá Tenerife. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýr meirihluti bæjarstjórnar Árborgar, sem tekur til starfa í næstu viku, kynnti sig og áherslur sínar í Tryggvagarði á Selfossi í dag.

Að sögn Braga Bjarnasonar, oddvita D-listans og verðandi formanns bæjarráðs, er leiðarljós nýs meirihluta að auka hagsæld sveitarfélagsins og tryggja velferð íbúa í Árborg.

„Saman ætlum við að gera kröftugt samfélag enn betra. Við ætlum að auka samráð, bæta upplýsingaflæði og hlusta á sjónarmið íbúa. Tækifærin eru mikil fyrir Sveitarfélagið Árborg þótt verkefni næstu ára séu umfangsmikil í rekstri sveitarfélagsins,” segir Bragi.

Fjóla og Bragi skipta með sér bæjarstjórastólnum
Embættisskipan nýs meirihluta verður á þann veg að Bragi Bjarnason og Fjóla St. Kristinsdóttir skipta með sér embætti bæjarstjóra og formanns bæjarráðs á kjörtímabilinu. Bragi byrjar sem formaður bæjarráðs fyrstu tvö árin og tekur svo við sem bæjarstjóri. Fjóla St. Kristinsdóttir byrjar sem bæjarstjóri fyrstu tvö árin og tekur svo við hlutverki formanns bæjarráðs. Kjartan Björnsson verður forseti bæjarstjórnar.

Hvað nefndarskipan varðar mun Bragi sinna formennsku í skipulags- og byggingarnefnd og umhverfisnefnd. Sveinn Ægir Birgisson verður formaður eigna- og veitunefndar, Helga Lind Pálsdóttir formaður félagsmálanefndar, Brynhildur Jónsdóttir formaður fræðslunefndar og Kjartan Björnsson formaður frístunda- og menningarnefndar. D-listinn hyggst fá fagaðila til þess að sinna nefndarsetu fyrir sína hönd í nokkrum nefndum.

Ætla að lækka laun bæjarstjóra
„Þetta leggst rosalega vel í mig. Ég er auðmjúk og þakklát og hrikalega stolt. Ég ber miklar taugar til sveitarfélagsins alls og hlakka til að vinna fyrir íbúana,“ segir Fjóla, verðandi bæjarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Meirihlutinn ætlar að gera hlutverk formanns bæjarráðs veigameira og Fjóla segir að það sé eitthvað sem sé fordæmi fyrir í öðrum sveitarfélögum.

„Við sáum þetta alltaf fyrir okkur og með þessu viljum við auka skilvirkni og flæði, enda mörk umfangsmikil verkefni framundan. Við ætlum að láta þetta koma út á núlli, þetta á ekki að hafa aukinn kostnað í för með sér, við ætlum að lækka laun bæjarstjóra og leggja niður starfið sem Bragi hefur verið í. Við lofuðum að sýna ráðdeild og það ætlum við að gera um leið og við aukum skilvirknina,“ segir Fjóla.

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar verður þann 8. júní næstkomandi og þá mun t.d. endanleg nefndaskipan sveitarfélagsins liggja fyrir.

Fyrri greinUnglingalandsmót skilar miklu til samfélagsins
Næsta greinSkólafólk á Selfossi sæmt pólskri heiðursorðu