Umdeild ljósmyndasýning í Ölfusi

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningarnefnd Ölfus furða sig á að Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri, fái að halda ljósmyndasýningu í bæjarbókasafninu rétt fyrir kosningar.

„Óviðeigandi,“ segja sjálfstæðismenn en Ólafur Áki er einn frambjóðenda A-listans í Ölfusi.

Í samtali við Sunnlenska segir Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi Ölfuss, enga pólitík búa að baki. Ákvörðun um að halda ljósmyndasýningu hafi verið tekin á þeim tíma þegar Ólafur Áki hugðist hætta sem bæjarstjóri og ekki gefa kost á sér í sveitarstjórnarkosningum – en hann hætti síðan við þá ákvörðun.

„Úr því málin voru þannig, bjóst ég svosem alveg við að sýningin vekti umtal. En ég kaus að breyta ekki mínu skipulagi útfrá því hvernig vindar blása í pólitíkinni,“ segir Barbara í samtali við Sunnlenska fréttablaðið.