Um tuttugu útköll í Árnessýslu

Tugir björgunarsveitarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslum hafa verið við óveðursaðstoð í kvöld. Þak fauk af iðnaðarhúsnæði í Þorlákshöfn og hefur nærliggjandi götum verið lokað.

Að sögn Viðars Arasonar, í svæðisstjórn björgunarsveitanna, losnaði þak á iðnaðarhúsnæði í Þorlákshöfn og var fengin grafa til að halda þakinu niðri. Búið er að loka nærliggjandi götum vegna hættu á foki.

Björgunarsveitir í Árnessýslu hafa sinnt um tuttugu verkefnum og í Vestmannaeyjum hafa björgunarmenn farið í á annan tug útkalla. Að sögn Viðars eru flestar sveitir farnar að pakka saman eftir daginn, nema í uppsveitum Árnessýslu þar sem veðrið er enn mjög slæmt.

Einna verst hefur ástandið á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu en minna hefur verið að gera á öðrum stöðum.

Að venju hafa verkefnin verið af ýmsum toga, mikið er um brotna glugga og hurðir sem hafa fokið upp. Skúrar fjúka, þakplötur og klæðingar losna, sólpallar og girðingar fara af stað og tré falla. Ekki er þó vitað um stórtjón á þessari stundu þótt ljóst sé að samanlagt tjón af völdum veðursins er töluvert.

Fyrri greinFerðamenn fastir á Kili – „Þetta er rétt að byrja“
Næsta greinHalldór ráðinn þjálfari U17 landsliðsins