Um 70 ungir einstaklingar greinast árlega með krabbamein

Ljósmynd/Aðsend

Þessa dagana stendur yfir vitundarvakning og fjáröflunarherferð hjá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Herferðin stendur til 4. febrúar en markmið hennar er að vekja athygli á hversu marga krabbamein hefur áhrif á, selja húfur til styrktar félaginu og starfsemi þess sem og afla styrkja fyrir félagið.

„Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári. Við viljum vekja athygli á því að krabbamein snertir ekki einungis þann sem greinist með krabbamein heldur fjölmarga í kringum hann þar á meðal maka, foreldra, börn, vini, vandamenn og jafnvel vinnufélaga. Að meðaltali má segja að um 7-10 nánir aðstandendur standi að baki hverjum einstaklingi,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Til að styðja við starfsemi Krafts getur fólk gerst mánaðarlegir styrktaraðilar, sent inn staka styrki eða keypt íslenska „Lífið er núna“ húfu sem var framleidd fyrir átakið. „Heiða Nikita hannaði húfuna fyrir okkur og er hún framleidd af Varma í samstarfi við Ístex. Okkur fannst ekkert annað koma til greina en að vera með íslenska hönnun og framleiðslu á þessum tímum og kemur húfan einstaklega vel út,“ segir Hulda. Húfan er til í svörtu og appelsínugulu og fæst í vefverslun Krafts, verslun og vefverslun Símans og í verslunum Geysis.

„Við hvetjum auk þess fólk til að deila reynslu sinni á samfélagsmiðlum um það hvernig krabbamein hefur haft áhrif á það og sýna þannig samstöðu og hversu marga krabbamein snertir. Það er til að mynda hægt að fara inn á vefsíðuna okkar www.lifidernuna.is og fylla þar út form um hvernig krabbamein hefur haft áhrif á þig hvort sem þú ert faðir, móðir, vinkona, sonur o.s.frv. þeim upplýsingum geturðu svo deilt á Facebook með sérstakri mynd. Með því að því að deila sýnir þú samstöðu og færð sent til baka upplýsingar um þá þjónustu og stuðning sem gæti gagnast þér,“ segir Hulda að lokum.

Lokahnykkur átaksins verður þann 4. febrúar, á alþjóðadegi gegn krabbameinum. Þá verður settur upp flottur rafrænn viðburður með frábæru listafólki sem hægt verður að horfa á í gegnum netstreymi þar sem miðlað verður til áhorfenda hvernig þeir geta styrkt starfið hjá Krafti. Viðburðurinn er í samstarfi við Vetrarhátíð Reykjavíkur.

Ljósmynd/Aðsend

 

Fyrri greinHamar vann toppslaginn
Næsta greinFjórtán kærðir fyrir að tala í síma undir stýri