Nú eru um 150 björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitum í Árnessýslu og af höfuðborgarsvæðinu við leit í og við Ölfusborgir en þar er leitað að 12 ára dreng sem sást síðast um klukkan 16 í Ölfusborgum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er drengurinn erlendur ferðamaður og því ekki kunnugur staðháttum.
Nú upp úr klukkan 22 voru björgunarsveitir af Suðurnesjum boðaðar út til aðstoðar við leitina. Leitað er með gönguhópum, drónum, hjólum og buggy bílum.
Drengurinn er með dökkt sítt hár sem bundið var í hnút og klæddist svartri hettupeysu, svörtum buxum og skóm með camo mynstri. Þeir sem telja sig hafa upplýsingar um drenginn eða telja sig hafa séð til hans eru beðnir að láta lögreglu vita í síma 112.

