Um 100.000 fjár slátrað á Selfossi í haust

„Við gerum ráð fyrir að slátra svipuðum fjölda og undanfarin ár, þ.e. um 100 þúsund fjár og búumst við hærri meðalvigt en sl. sumars vegna góðs árferðis.

Það má því búast við aukningu í tonnum talið. Verðhækkun til bænda er tæp 3% milli ára og er það stefna félagsins að greiða samkeppnishæft verð hverju sinni. Sú nýbreytni er tekin upp í þjónustuskyni við bændur að taka við ógeltum fullorðnum hrútum til slátrunar í september, en hingað til hefur verið ómögulegt að afsetja þessa afurð“, segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri hjá SS þegar hann var spurður út í sláturtíðina á Selfossi, sem hófst 10. september.

Atvinnuslátrarar frá Nýja-Sjálandi
Á milli 140 og 150 manns munu starfa í sláturtíðinni á Selfossi að meðtöldu fastafólki. „Við ráðum því hátt í 120 manns fyrir sláturtíðina. Vaskan hóp Íslendinga sem margir hverjir eru hoknir af reynslu eftir vinnu hjá okkur í sláturtíð í áratugi og líkt og undanfarin ár fáum við svo atvinnuslátrara frá Nýja-Sjálandi og nokkra tugi Pólverja sem margir hverjir hafa komið ár eftir ár til okkar,“ segir Guðmundur.

Hirða lungun og barkann
Það þótti tíðindum sæta þegar fyrirtækið byrjaði að hirða hrútstittlingana í fyrra. „Nú hirðum við líka hluti eins og lungu og barka, ytri afskurð úr snyrtingu, bein, sinar, hækla o.fl. o.fl. Einnig erum við að þróa meiri úrvinnslu kjöts í sláturtíðinni og stefnum á að fullvinna stóran hluta kjötsins í sölu- og vinnslupakkningar í stað þess að stafla heilum skrokkum í stæður inni á frosti sem síðan eru teknar til frekari vinnslu. Þá gerum við ráð fyrir að flytja meira út af kjöti og afurðum strax í sláturtíð en áður hefur þekkst. Góð viðskiptasambönd erlendis og ný og fullkomin aðstaða á Selfossi gera okkur þetta kleift. Þetta sparar geymslukostnað og margmeðhöndlun á afurðum,“ segir Guðmundur.

Fyrri grein„Þetta verður barátta í hverjum leik“
Næsta greinSpurt eftir leiguhúsnæði á Eyrarbakka