Úlpuránið upplýst

Úlpurnar sem stolið var úr fatahengi í anddyri Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn föstudagsmorgun eru komnar í leitirnar og þjófurinn fundinn.

Lögreglan fékk ábendingar frá borgurum eftir að mynd af ungri konu sem tók úlpurnar birtist í fjölmiðlum síðastliðinn þriðjudag, meðal annars á sunnlenska.is. Lögreglumenn á vakt könnuðu þær vísbendingar sem bárust og unnu úr þeim.

Ítarleg rannsókn þeirra leiddi svo til þess að grunur féll á tvítuga konu með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki tengist skólanum á neinn hátt. Hjá konunni fundust tvær úlpur og sú þriðja var komin í sölu en náðist til baka. Samtals verðmæti úlpnanna þriggja úr verslun er um 130 þúsund krónur.

Lögregla vill koma á framfæri þakklæti til forráðamanna FSu, sem gerðu allt sem til þurfti, og þeim einstaklingum sem komu með upplýsingar eftir að leitað var eftir þeim á netmiðlum.

Fyrri greinHosiló fagnar 5 ára afmæli með teboði
Næsta greinSveitarstjórnarmaður dregur hæfi sveitarstjóra í efa