Úlpuþjófur fékk skilorðsbundinn dóm

Kona um tvítugt var dæmd í 30 daga fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í dag fyrir að stela þremur úlpum í anddyri Fjölbrautaskóla Suðurlands í janúar síðastliðnum. Dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára.

Konan kom í skólann að morgni föstudagsins 11. janúar og stal þremur úlpum úr fatahengi skólans.

Eftir að mynd úr öryggismyndavél birtist í fjölmiðlum féll grunur á konuna, sem er um tvítugt með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu og tengist skólanum ekki á neinn hátt. Hjá henni fundust tvær úlpur og sú þriðja var komin í sölu en náðist til baka. Samtals verðmæti úlpnanna þriggja úr verslun var rúmlega 150 þúsund krónur.

Ákærða viðurkenndi brot sitt skýlaust við þingfestingu málsins. Hún var dæmd í 30 daga fangelsi en fullnustu refsingarinnar er frestað haldi konan skilorð í tvö ár.

Fyrri grein1,1 milljón í sekt fyrir landabrugg
Næsta greinGraffití og strætislist í Listasafninu