Týndist á Þingvöllum – fannst á hóteli í Reykjavík

Franski ferðamaðurinn sem saknað var á Þingvöllum síðan síðdegis í dag er fundinn heill á húfi. Hann var kominn heim á hótel í Reykjavík.

Maðurinn var í hópferð en skilaði sér ekki aftur eftir gönguferð um Almannagjá en rúta beið hópsins við Hakið. Leit ferðafélaga hans bar engan árangur og var því ákveðið að kalla eftir aðstoð björgunarsveita þar sem maðurinn er heilsuveill.

Frakkinn taldi sig hins vegar hafa misst af rútunni og fór á puttanum til Reykjavíkur og var í góðu yfirlæti á hótelherbergi sínu. Þá höfðu björgunarsveitir í Árnessýslu verið kallaðar út.

UPPFÆRT KL. 19:29