Týnda konan leitaði að sjálfri sér

Konan sem leitað var að í Eldgjá í gær var alls ekki týnd. Hún hafði farið á snyrtinguna og skipt um föt svo að samferðamenn þekktu hana ekki. Hún hjálpaði síðan til við leitina að sjálfri sér.

Konunnar var saknað um hádegi í gær og var leitað að henni til klukkan að verða þrjú í nótt þegar hið sanna kom í ljós. Konan hafði þá tekið þátt í að leita að sjálfri sér.

Hún var farþegi í rútu sem stoppaði í klukkutíma við Eldgjá og þegar talið var að konan hafði ekki skilað sér aftur í rútuna var farið að svipast um eftir henni. Björgunarsveitir voru kallaðar út og óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við leitina.

Í nótt kom svo í ljós að konan var allan tímann í hópi ferðamannanna. Hún hafði farið á snyrtinguna á meðan hópurinn stoppaði og skipt þar um föt og lagað sig til. Það virðist hafa orðið til þess að enginn þekkti hana aftur og því var hafin leit að henni.