Tvöfaldur sigur Flóaskóla

Þriðja og síðasta lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Suðurlandi 2012 fór fram í félagsheimili Hrunamanna á Flúðum í síðustu viku.

Flóaskóli vann tvöfaldan sigur en Eyrún Gautadóttir varð í 1. sæti og Þórarinn Guðni Helgason í 2. sæti. Í 3. sæti varð Eva María Larsen Bentsdóttir úr Grunnskóla Bláskógabyggðar.

Alls kepptu 7. bekkjar nemendur úr fimm skólum; Flúðaskóla, Flóaskóla, Grunnskóla Bláskógabyggðar, Kerhólsskóla og Þjórsárskóla.

Keppnin fór fram í þremur hlutum. Fyrst lásu keppendur hluta úr sögu Kristínar Helgu Gunnarsdóttur Draugaslóð, næst völdu þau úr tíu ljóðum Gyrðis Elíassonar og fluttu og loks lásu þau ljóð að eigin vali.

Dagskráin var krydduð með alls kyns öðrum listviðburðum. Nemendur úr Flúðaskóla fluttu tónlist, vinningshafar frá fyrra ári kynntu höfunda keppninnar og Hlegi Jóhannesson formaður fræðslunefndar Hrunamannahrepps flutti ávarp.

Dómnefnd skipuðu þau Jósefína Friðriksdóttir formaður, Þorvaldur H. Gunnarsson, Linda Dögg Sveinsdóttir, Sigrún Ásgeirsdóttir og Elín Una Jónsdóttir.

Fyrri greinSkildu fjórða þjófinn eftir sofandi
Næsta greinÖlvaður ók útaf í Kömbunum