Tvöfaldar kornsáningu milli ára

Að sögn Björgvins Þórs Harðar­sonar, svínabónda í Laxárdal í Gnúpverjahreppi, hefur hann tvöfaldað kornsáningu sína á milli ára.

Að þessu sinni sáði hann byggi í um 203 hektara lands sem er nánast tvöföldun frá síðasta ári. Einnig sáir hann nokkru af hveiti núna en á síðasta ári náði hann að þreskja hveiti af um 20 hekturum. ,,Eins og verðið er á svínakjöti núna verðum við að leita allra leiða til að lækka fóður­kostn­að. Það er ljóst að reksturinn stend­ur ekki undir innfluttu fóðri,” sagði Björgvin.

Landbúnaðarráðherra er núna að láta skoða möguleika á því að styrkja kornrækt hér á landi og sagði Björgvin að þeir kornbændur fylgdust með því af áhuga. ,,Það væri óskandi ef það kæmu til ein­hverjir styrkir fyrir kornræktina. Eins og staðan er núna má ekkert útaf bregða í ræktuninni til að ná endum saman.”

Fyrri greinJafnt í Breiðholtinu
Næsta grein„Verðum vonandi meira en sjoppustopp“