Tvö sunnlensk verkefni fengu styrk

Tvö verkefni á Suðurlandi hlutu 250 þúsund króna umhverfisstyrk úr Samfélagssjóði Landsbankans þann 21. júní síðastliðinn.

Ferðafélag Mýrdælinga fékk styrk vegna endurbyggingar Deildarárskóla sem stendur við Barð í Höfðabrekkuafrétti. Nota á húsið fyrir göngu- og ferðafólk. Svæðið í kringum Þakgil er orðið vinsælt meðal ferðamanna og þá sérstaklega göngufólks og því mikil þörf fyrir hús af þessu tagi.

Kvenfélag Grímsneshrepps fékk styrk til verkefnisins Ekki kaupa rusl! sem er ætlað að auka vitund um hvað hægt er að gera til að draga úr rusli sem fellur til á heimilum, vinnustöðum og stofnunum í Grímsnes- og Grafningshreppi.