Tvö sunnlensk börn tóku fyrstu skóflustunguna að nýjum grunnskóla í Svíþjóð

Fyrir skömmu var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum grunnskóla í Lundi í Svíþjóð. Svo skemmtilega vildi til að börnin sem tóku skóflustunguna eru bæði Sunnlendingar.

Þetta voru þau Hugrún Ísleif Róbertsdóttir frá Vatnsenda í Flóahreppi og Kjartan Ægir Grétarsson frá Selfossi. Hugrún Ísleif er dóttir Gróu Valgerðar Ingimundardóttur og Róberts Pálmasonar og Kjartan Ægir er sonur Hugborgar Kjartansdóttur og Grétars Magnússonar.

Hugrún Ísleif Róbertsdóttir.

Í nýja skólanum sem rísa mun á Kämnärsvägen, eða Kjammanum eins og Íslendingar kalla götuna, munu sameinast tveir núverandi skólar, Ladugårdsmarken skola og Delfinskolan. Einn fulltrúi frá hvorum skóla var dreginn úr potti sem hafði að geyma nöfn allra barnanna í 2010 árgangnum og svo ótrúlega vildi til að bæði börnin voru íslensk – og bæði frá Suðurlandi. Hugrún Ísleif, sem er á myndinni hér til hægri, var fulltrúi Ladugårdsmarken og Kjartan Ægir fulltrúi Delfinskolan.

Hugrún Ísleif og Kjartan Ægir verða í fyrsta árgangnum sem mun útskrifast úr nýja skólanum og því voru það þeirra bekkir sem voru viðstaddir skóflustunguna.

Að sögn Gróu Valgerðar, móður Hugrúnar, eru mörg íslensk börn í grunnskólunum á þessu svæði. Í bekk Hugrúnar eru tvö íslensk börn og í bekk bróður hennar eru fimm íslensk börn og þau voru sex í fyrra. Svipaða sögu má segja um skóla Kjartans Ægis. Það er ekki að furða, enda búa mörg hundruð Íslendingar í Lundi og nærsveitum.

Flest börnin í skólanum eru tvítyngd og segir Gróa Valgerður að þarna sé ótrúlega skemmtilegt umhverfi fyrir krakkana.

Fyrri greinSkeiðamenn og Gnúpverjar komnir með Útsvarslið
Næsta greinSigurður Ingi: Kærar þakkir