Tvö mótorhjólaslys á laugardag

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tvö mótorhjólaslys urðu á Suðurlandi á laugardag og virðist sem ökumennirnir hafi báðir sloppið með skrekkinn.

Í fyrra tilvikinu missti ökumaður stjórn á hjóli sínu á Biskupstungnabraut við Svínavatn. Hann ók útaf og kastaðist af hjólinu langt út fyrir veg. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is voru tveir sjúkraflutningmenn af Vesturlandi meðal fyrstu vegfarenda á vettvang og hlúðu þeir að manninum á meðan beðið var eftir sjúkrabíl. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að maðurinn var fluttur á sjúkrahús en meiðsli hans eru ekki talin alvarleg. Hjólið var hins vegar stórskemmt.

Hitt slysið varð í Kömbunum þar sem ökumaður á leið niður Kamba missti stjórn á hjóli sínu og hafnaði utan vegar. Hann hlaut skrámur og marbletti af en taldi ekki þörf á að leita læknis.

Fyrri greinLeitað að vitnum að líkamsárás
Næsta greinAðalmeðferð hafin í fjárdráttarmáli