Tvö hringtorg breyta aðkomu að Reykholti

Miklar breytingar standa fyrir dyrum á gatnakerfi Reykholts í Biskupstungum.

Til stendur að setja upp tvö hringtorg í þorpinu, annað við Bjarnabúð en hitt við Bjarkarbraut og Vegholt, norðar í þorpinu.

Samhliða standa fyrir breytingar á deiliskipulagi og mögulega einnig á aðalskipulagi.

Töluverð óvissa ríkir um kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins Bláskógabyggðar og Vegagerðarinnar við gerð hringtorganna. Vegagerðin kostar afleggjara héraðsvega en sveitarfélagið aðra afleggjara. Í augnablikinu er afleggjarinn við Vegholt, eini afleggjarinn á báðum hringtorgunum sem Bláskógabyggð kostar.

Afleggjarinn heim að Brautarhóli er heimkeyrsla og því í umsjón Vegagerðarinnar og bæði Bjarkarbraut og Skólabraut eru héraðsvegir.

Hinsvegar hefur tilflutningur þeirra til sveitarfélagsins staðið lengi fyrir dyrum en staðið hefur á lokafrágangi gatnanna svo að af afhendingu geti orðið. Vegna þessara tafa hefur sveitarstjórn ekki gert ráð fyrir kostnaði við hringtorgin í fjárhagsáætlun og mun ekki taka afstöðu til nauðsynlegra lána vegna framkvæmdanna fyrr en kostnaðarhlutdeildin liggur fyrir.

Í tillögu að samgönguáætlun 2011 til 2022 er gert ráð fyrir framkvæmdum við Reykjaveg árin 2015 til 2018. Sveitarstjórn hefur samþykkt samhljóða að kanna hvort rétt sé að breyta legu Reykjavegar svo að hann tengist Biskupstungnabraut við hringtorgið við Bjarkarbraut frekar en við núverandi aðkomu á milli Torfastaða og Vegatungu.