Tvö framboð í Ásahreppi

Tveir framboðslistar verða í boði í Ásahreppi í komandi sveitarstjórnarkosningum en þar hefur um árabil verið óhlutbundin kosning.

Þannig hafa allir kjörgengir íbúar verði í kjöri, nema þeir sem skorast hafa undan framboði fyrirfram.

Áshreppingar geta nú kosið á milli E-lista Einingar í Ásahreppi eða L-lista áhugafólks um lausnir og betra samfélag.

Allir núverandi hreppsnefndarfulltrúar eiga sæti á öðrum hvorum listanum. Þannig er Elín Grétarsdóttir oddviti E-listans og á honum sitja einnig Egill Sigurðsson, oddviti og Nanna Jónsdóttir, sveitarstjóri. Brynja Jónasdóttir er í 3. sæti L-listands og Karl Ölvirsson í 4. sæti.

Fólk sem hefur áhuga á sveitarstjórnarmálum
Ásta Begga Ólafsdóttir, oddviti L-listans, segir að með því að bjóða fram lista í sveitarfélaginu sé hægt að kjósa fólk sem hefur áhuga á að starfa fyrir sveitarfélagið. „Samkvæmt sveitarstjórnarlögum þá eru allir 18-65 ára skyldugir til að taka kosningu eitt kjörtímabil í óhlutbundnum kosningum, sama hvort þeir hafa áhuga á því eða ekki. Allir frambjóðendur L-listans er fólk sem hefur áhuga á sveitarstjórnarmálum og langar til að láta gott af sér leiða í sveitarfélaginu,“ sagði Ásta Begga í samtali við sunnlenska.is. Meðal áherslumála L-listans séu atvinnumál, umhverfismál, skipulagsmál og íbúalýðræði.

Harma að staðan sé þessi
„E-listi, listi Einingar í Ásahreppi kom til nú í byrjun maí eftir fjölda áskorana frá íbúum um að fá að nýta lýðræði sitt og mæta á kjörstað, hafa val. E-listi, listi Einingar í Ásahreppi harmar að staðan sé þessi, þar sem fólk í okkar röðum aðhyllist persónukjöri í svona litlu sveitarfélagi,“ sagði Elín Grétarsdóttir, oddviti E-listans, í samtali við sunnlenska.is. Hún segir ýmis málefni brenna á fulltrúum E-listans en helstu áhersluatriði listans verði kynnt á næstu dögum.

E-listi Einingar í Ásahreppi:
1. Elín Grétarsdóttir, fósturforeldri, Riddaragarði
2. Ágústa Guðmarsdóttir, ráðgjafi hjá Virk, Steinsholti
3. Egill Sigurðsson, bóndi og oddviti, Berustöðum
4. Nanna Jónsdóttir, sveitarstjóri, Miðhóli
5. Eydís Hrönn Tómasdóttir, kennari, Kastalabrekku
6. Jón Sæmundsson, véla- og orkutæknifræðingur, Ráðagerði 1
7. Kristín Ósk Ómarsdóttir, deildarstjóri, Sjónarhóli
8. Jakob Sigurjón Þórarinsson, bóndi, Áskoti
9. Erla Brimdís Birgisdóttir, kennari, Ásmúla
10. Aasa E.E. Ljungberg, tamningakona, Steinahlíð

L-listi áhugafólks um lausnir og betra samfélag:
1. Ásta B. Ólafsdóttir, ferðaþjónustubóndi, Miðási
2. Guðmundur J. Gíslason, bóndi og bókari, Hárlaugsstöðum 2
3. Brynja J. Jónasdóttir, bókari og bóndi, Lyngholti
4. Karl Ölvirsson, bóndi, Þjórsártúni
5. Helga B. Helgadóttir, kúabóndi, Syðri-Hömrum 3
6. Erlingur F. Jennsson, tæknifræðingur, Lækjarbrekku
7. Fanney B. Karlsdóttir, iðjuþjálfi, Einholti
8. Sigurður R. Sigurðarson, bóndi og skólabílstjóri, Vetleifsholti
9. Grétar H. Guðmundsson, bifreiðastjóri og ökukennari, Seli
10. Guðmundur Hauksson, bifvélavirki, Ási 1