Tvö parhús og tíu hektara land selt

„Það er ekki hlutverk sveitarfélaga að standa í rekstri sem þessum og hefur því verið stefna eigenda síðustu árin að selja eignirnar. Við höfum þegar selt það sem félagið átti í Þykkvabæ og hluta á Hellu einnig.“

Þetta segir Ingvar P. Guðbjörnsson, formaður stjórnar Húsakynna bs.

Húsakynni er félag í eigu Rangárþings ytra og Ásahrepps og hefur lengst af rekið íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk sveitarfélaganna, m.a. kennara, heilbrigðisstarfsfólk, sveitarstjóra o.fl. Í dag hefur þetta breyst og íbúðirnar verið í almennri útleigu að jafnaði síðustu árin.

Félagið hefur ákveðið að selja tvö parhús við Giljatanga á Laugalandi í einu lagi, ásamt um 10 hektara aðliggjandi landspildu úr landi Nefsholts 2 sem er í eigu Rangárþings ytra.

„Við höfum verið með íbúð í Giljatanga á söluskrá í mörg ár, en engin tilboð komið fram. Við ræddum því þessa hugmynd á aukaaðalfundi nýverið og munum á næstunni auglýsa þessar eignir saman til sölu. Vonandi sjá margir tækifæri í að eignast þetta allt á einu bretti og gera okkur tilboð,“ bætir Ingvar við og segir Laugaland einstaklega vel í sveit sett, ekki síst hvað möguleika í ferðaþjónustu varðar.

Á aukaaðalfundinum var samþykktum félagsins breytt og því nú fengið það hlutverk til viðbótar að sjá um rekstur sameiginlegra fasteigna sveitarfélaganna tveggja. Meðal þeirra eru grunnskóli, leikskóli, íþróttahús, sundlaug o.fl. á Laugalandi í Holtum.

Fyrri greinTöluverðar skemmdir á rafmagnslínum
Næsta greinKínóapops-súkkulaði