Tvennt flutt á sjúkrahús eftir bílveltu

Tvennt var flutt á sjúkrahús til skoðunar eftir bílveltu á Hellisheiði laust fyrir klukkan sex í gærkvöldi.

Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru á vettvang ásamt slökkviliðsmönnum á tækjabíl frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði. Karl og kona sem voru í bílnum þörfnuðust aðstoðar við að komast út úr honum en ekki þurfti þó að beita klippum slökkviliðsins.

Hálka og snjór voru á vettvangi en svo virðist sem ökumaðurinn hafi misst stjórn á bifreiðinni sem lenti utan vegar og fór eina veltu.

Fólkið var flutt á sjúkrahús til nánari skoðunar og slökkviliðsmenn hreinsuðu upp brak og önnur mengandi efni frá bílnum sem er talsvert skemmdur.