Tveir ungir ökumenn í akstursbann

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Lögreglan á Suðurlandi kærði 97 ökumenn fyrir hraðakstur í liðinni viku. Tveir þeirra voru mældir á 140 km/klst hraða eða meira á 90 km/klst vegi.

Tveir þessara 97 ökumanna eru ungir og fengu með brotum sínum punkta í ökuferilsskár sem kom þeim í eða yfir fjóra punkta. Þeir voru því, samkvæmt reglunum, settir í akstursbann og fá ekki að aka fyrr en að afloknu sérstöku námskeiði fyrir þá sem sæta akstursbanni.

Nú þýðir ekkert að bera fyrir sig að erlendu ferðamennirnir séu til vandræða því um ¾ þeirra sem afskipti voru höfð af eru með íslenska kennitölu, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar. Á sama tíma í fyrra voru hraðakstursmálin svipað mörg en þá voru það erlendu ferðamennirnir sem áttu ¾ hluta málanna. Lögreglan segir ljóst að ökumenn geti gert betur í þessum efnum.

Þá var einn ökumaður stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis, annar um akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna og sá þriðji um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna eingöngu. Allir voru þessir ökumenn á ferð í Árnessýslu.

Fyrri greinRúðubrot á Selfossi
Næsta greinEinn Íslandsmeistaratitill á Selfoss