Tveir snarpir skjálftar á Hellisheiði

Tveir jarðskjálftar, 3,8 og 3,7 á Richter urðu við Hellisheiðarvirkjun á tíunda tímanum í morgun. Skjálftarnir fundust greinilega í Hveragerði og allt austur á Hellu.

Frá miðnætti hefur orðið fjöldi skjálfta á Hellisheiði sem raktir eru til niðurrennslis vatns í borholur við Hellisheiðarvirkjun.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að íbúum í bænum sé brugðið enda hafi skjálftanir verið mjög snarpir. Atburðirnir í morgun þrýsti frekar á að Orkuveita Reykjavíkur breyti starfsháttum sínum eins og Hvergerðingar hafa gert kröfu um.

„Þetta er gjörsamlega óþolandi og ég held að stjórnendur Orkuveitunnar og eigendur ættu að hugsa til þess hvor þeir myndu vilja búa við þetta ástand,“ segir Aldís. „Mér finnst algjörlega ólíðandi að einstaklingar og fyrirtæki séu að leika sér með þessum hætti að náttúrunni og það hefur í rauninni enginn hugmynd um hvað þarna er að gerast,“ segir hún.