Tveir Selfyssingar stýrðu flugi hjá Icelandair í fyrsta sinn

Tímamót urðu í flugsögu Selfoss í gær en þá var flugvél Icelandair í fyrsta skipti flogið af tveimur Selfyssingum.

Flugstjóri var Gauti Sigurðsson og flugmaður Kristján Bergsteinsson. Um var að ræða flug FI657 til Minneapolis en flugvélin var af gerðinni Boeing 757-200 og heitir eldstöðvarheitinu Laki.

Gauti hefur flogið fyrir Icelandair undanfarin tólf ár en Kristján hóf störf hjá félaginu í fyrra. Báðum er þeim flugið í blóð borið. Gauti er sonur Sigurðar heitins Karlssonar og Kristínar Steinþórsdóttur en Kristján er sonur Bergsteins Einarssonar og Hafdísar Kristjánsdóttur. Einar Elíasson, afi Kristjáns, var einn af stofnfélögum Flugklúbbs Selfoss, og Sigurður faðir Gauta var forystumaður í klúbbnum til margra ára.

Að sögn Gauta höfðu þeir félagarnir gaman af þessari samvinnu. „Þetta var algjörlega frábært og rúmlega sex tíma flug til Minneapolis gekk vel og var fljótt að líða,“ sagði Gauti í samtali við sunnlenska.is.

Þess má svo að lokum geta að myndin sem fylgir fréttinni var tekin af þriðja Selfyssingnum, Sævari Má Þórissyni, sem var farþegi í fluginu.

Fyrri greinForsendur fyrir góðri fjármálastjórn er vönduð fjárhags-áætlunargerð
Næsta greinGarðar og Jóhanna Ýr efst á B-listanum í Hveragerði