Tveir óku undir áhrifum fíkniefna

Rólegt var í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í nótt þrátt fyrir mikinn mannfjölda í Árnessýslu.

Tveir ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna í Úthlíð. Annar þeirra var einnig undir áhrifum áfengis og var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða.

Þá fundu leitahundar tollgæslunnar lítilræði af hassi í Úthlíð. Þar eru rúmlega þúsund manns samankomin á tjaldstæðinu en um helmingi fleiri eru á Flúðum. Þar fór allt vel fram fyrir utan minniháttar pústra.

Annars var nóttin tíðindalítil, einn lögreglumaður sinnti umferðareftirliti með þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar og voru allir ökumenn sem stöðvaðir voru með sitt á hreinu. Þó var einn tekinn fyrir ölvunarakstur í Veiðivötnum.

Fyrri greinÖlvaður bílstjóri í Veiðivötnum
Næsta greinOlga Færseth í Selfoss