Í dag stöðvuðu lögreglumenn í umdæmi Hvolsvallarlögreglu nokkra ökumenn vegna hraðaksturs, tveir þeirra óku á yfir 130 km/klst, sem er nærri flugtakshraða.
Á facebooksíðu lögreglunnar á Hvolsvelli segir að það hljóti hverjum menni að vera ljóst að slíkur akstur gengur engan veginn og enginn maður hefur rétt til að leggja aðra vegfarendur í hættu með slíku háttalagi.
„Við viljum því biðla til allra þeirra sem leið eiga um vegi landsins að aka gætilega og virða hraðamörk. Með því eru meiri líkur á að við komumst öll heil heim,“ segir lögreglan á Hvolsvelli.
Þeir sem hraðast óku voru báðir á ferðinni í Eldhrauninu, vestan við Klaustur.