Tveir lentu undir rútunni

Rútuslys í Öræfum. Mynd úr safni. Ljósmynd/Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Tveir festust undir rútunni sem valt í Öræfum í dag og tók um 30 mínútur að losa þá undan henni. Bændur í nágrenninu aðstoðuðu við verkið með landbúnaðarvélum.

Í pistli sem Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), ritar á heimasíðu stofnunarinnar segir að aðgerðarstjórn hafi gengið mjög greiðlega fyrir sig. Um hálf sjö í kvöld var búið að flokka áverka hinna slösuðu og ákveða flutningamáta á sjúkrahús.

Læknir, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraflutingamenn og björgunarfólk var fyrst á vettvang frá HSU á Höfn í Hornafirði og Kirkjubæjarklaustri til að koma hinum slösuðu til hjálpar og aðhlynningar. Að auki var send af stað greiningarsveit frá bæði HSU og Landspítalanum, auk fjölmargra annarra aðila. Söfnunarsvæði slasaðra var sett upp á Litla-Hofi þar sem lagt var mat á ástand og áverka hinna slösuðu. Læknir heilsugæslunnar á Höfn var aðhlynningarstjóri á vettvangi og varðstjóri sjúkraflutninga HSU var flutningsstjóri á vettvangi.

Fjórir alvarlega slasaðir voru fluttir strax á Landspítala og munu þrír minna slasaðir verða fluttir þangað einnig. Flugvél Landhelgisgæslunnar flutti tíu slasaða á Sjúkrahúsið á Akureyri og sjúkraflugvél Norðurflugs flaug frá Fagurhólsmýri með ellefu slasaða á sjúkrahús HSU á Selfossi og er nú verið að sækja fimm sjúklinga til viðbótar af slysstað til aðhlynningar á Selfoss.

Mikill viðbúnaður var á Sjúkrahúsinu á Selfossi en afar vel gekk að kalla út lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraflutningamenn til að taka þátt í aðgerðum á HSU. Útbúin var móttaka á bráðamóttöku HSU á Selfossi og auk þess sett upp skoðunar- og meðferðrrými í opinni móttöku og á biðstofu Sjúkrahússins á Selfossi til að taka við sextán slösuðum einstaklingum.

Fyrri greinÖrn Þrastar áfram með kvennaliðið
Næsta greinAf hverju var ekki önnur bókaspurning?