Tveir í samfloti á 163 km/klst hraða

Lögreglan við hraðamælingar. Mynd úr safni. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan á Suðurlandi svipti tvo ökumenn ökuréttindum á staðnum en þeir voru stöðvaðir eftir hraðakstur á Mýrdalssandi í gær.

Um var að ræða erlenda ferðamenn sem voru í samfloti á tveimur bifreiðum. Bílarnir mældust á 163 km/klst hraða. Farþegar úr bifreiðunum tóku við akstri þeirra en mennirnir missa bílprófið í tvo mánuði.

Alls voru ellefu ökumenn kærðir fyrir hraðakstur á Mýrdalssandi og í kringum Vík í Mýrdal í gær, þar af voru tveir bílar á yfir 140 km/klst hraða. Af þessum ellefu voru sex erlendir ferðamenn og fimm Íslendingar.

Þá ók einn ökumaður á 95 km/klst hraða í gegnum þorpið í Vík en þar er 50 km/klst hámarkshraði.

Samtals munu þessir ökumenn þurfa að greiða rúmlega eina milljón króna í sekt.

Lögreglan á Suðurlandi kærði tíu ökumenn fyrir hraðakstur annarsstaðar í umdæminu í gær, þannig að samtals var 21 ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur.

Fyrri greinSelfoss vann Gróttu en Haukar hirtu titilinn
Næsta greinÉg er svaðalega skapstór