Tveir í haldi eftir innbrot í Selvogi

Lögreglan á Selfossi handtók tvo 17 ára pilta í nótt vegna innbrots í sumarbústað við Hlíðarvatn í Selvogi. Þjófavarnarkerfi í bústaðnum fór í gang rétt fyrir klukkan fimm í nótt.

Lögregla mætti þjófunum í bíl þar sem þeir voru að koma af Suðurstrandarvegi inn á hringtorgið í Þorlákshöfn. Í bíl þeirra fannst kúbein og nokkrir brúsar með bensíni og dísilolíu. Töluverðar skemmdir urðu á bústaðnum við innbrotið.

Lögreglan er á staðnum núna og kannar hvort hafi verið farið inn í fleiri hús á svæðinu og hvort einhvers er saknað. Málið er í rannsókn en piltarnir verða yfirheyrðir síðar í dag.

Þá var einn ökumaður handtekinn í nótt vegna ölvunaraksturs. Lögreglan fékk tilkynningu um bíl í gangi utanvegar í suðurbæ Selfoss og þegar laganna verðir mættu á staðinn sat ökumaðurinn ölvaður í bílnum og áttaði sig ekki á því hvar hann var staddur. Hann fékk gistingu í kjallaranum á lögreglustöðinni.

Fyrri greinVarðskipið Þór til sýnis í Þorlákshöfn
Næsta greinVésteinn flytur Kipketer til landsins