Tveir harðir árekstrar með klukkutíma millibili

Tveir harðir árekstrar urðu á Suðurlandsvegi í Flóa með klukkutíma millibili eftir hádegi á föstudag. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.

Í öðru tilvikinu tók ökumaður U-beygju á móts við Arnarstaði og lenti framan á bifreið sem kom á móti. Hinn áreksturinn varð þar sem bifreið var ekið af Skeiðavegi inná Suðurlandsveg í veg fyrir bifreið sem var ekið til vesturs. Sjö manns voru samtals í bifreiðunum. Allir voru fluttir á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunar. Engin reyndist alvarlega slasaður.

Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur fram að þung umferð var um helgina í umdæmi hennar Lögreglumenn héldu úti miklu eftirliti og ræddu við marga ökumenn. Virtist mikil gagnkvæm ánægja með þau samskipti og ökumenn mjög sáttir við að vera stöðvaðir á leið sinni enda metnaður allra að taka þátt í að komast leiðar sinnar án óhappa.
Þrátt fyrir þetta voru 24 ökumenn sem voru kærðir fyrir að aka of hratt, einn fyrir fíkniefnaakstur að auki var hann sviptur ökurétti.
Fyrri greinKiriyama Family heldur toppsætinu
Næsta greinUm borð í bát á hættulegum stað