Tveir harðir árekstrar með klukkutíma millibili

Tveir harðir árekstrar urðu á Suðurlandsvegi í Flóa með klukkutíma millibili eftir hádegi á föstudag. Ekki urðu alvarleg slys á fólki.

Í öðru tilvikinu tók ökumaður U-beygju á móts við Arnarstaði og lenti framan á bifreið sem kom á móti. Hinn áreksturinn varð þar sem bifreið var ekið af Skeiðavegi inná Suðurlandsveg í veg fyrir bifreið sem var ekið til vesturs. Sjö manns voru samtals í bifreiðunum. Allir voru fluttir á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunar. Engin reyndist alvarlega slasaður.

Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur fram að þung umferð var um helgina í umdæmi hennar Lögreglumenn héldu úti miklu eftirliti og ræddu við marga ökumenn. Virtist mikil gagnkvæm ánægja með þau samskipti og ökumenn mjög sáttir við að vera stöðvaðir á leið sinni enda metnaður allra að taka þátt í að komast leiðar sinnar án óhappa.
Þrátt fyrir þetta voru 24 ökumenn sem voru kærðir fyrir að aka of hratt, einn fyrir fíkniefnaakstur að auki var hann sviptur ökurétti.