Tveir handteknir með tugi kílóa af kannabisefnum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi handtók tvo menn í lok maí eftir að upp komst um þurrkun kannabisefna í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu.

RÚV greinir frá þessu.

Talið er að mennirnir hafi tekið bústaðinn á leigu í gegnum Airbnb. Mennirnir eru lausir úr haldi en annar þeirra, sem er erlendur ríkisborgari, hefur verið úrskurðaður í farbann fram í ágúst.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að lögreglan hafi knúið dyra í bústaðnum en kannabisþef hafi lagt frá húsinu. Á bílastæði við bústaðinn var sendiferðabíll og í honum tæki og tól til kannabisframleiðslu auk tuga kílóa af kannabisefnum í þremur stórum plastkössum.

Erlendi maðurinn neitaði við skýrslutöku að hafa verið kunnugt um fíkniefnin í bílnum. Hann þekkti Íslendinginn en tilgangur ferðar hans hafi verið að skoða sumarhús, borða þar og halda svo aftur heim. Íslendingurinn neitaði hins vegar að tjá sig um sakarefnin.

Frétt RÚV