Tveir handteknir eftir útafakstur

Lögreglan á Selfossi stöðvaði fimm ökumenn í liðinni viku sem eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Í einu þeirra voru tveir aðilar handteknir eftir að hafa ekið bifreið sinni út af vegi við Þingborg í Fóa og fest hana þar.

Þeir voru báðir handteknir á vettvangi og yfirheyrðir eftir að hafa sofið úr sér vímuna. Einn er grunaður um að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna en akstur hans var stöðvaður við Hvolsvöll.

Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir þar sem þeir voru að aka bifreið sviptir ökuréttindum og sjö aðilar voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku.

Samtals er skráð 21 umferðaróhapp í umdæminu í vikunni og rekja má flest þeirra til hálku og þess að akstri er ekki hagað í samræmi við aðstæður á vegi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinÞrír fluttir með þyrlu á slysadeild
Næsta greinByssur teknar af rjúpnaskyttum