Tveir garðar og tvö fyrirtæki verðlaunuð

Viðurkenningarhafarnir ásamt Braga Bjarnasyni, formanni umhverfisnefndar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umhverfisnefnd Árborgar afhenti umhverfisviðurkenningar sveitarfélagsins 2023 á sléttusöngnum í Sigtúnsgarði í gærkvöldi.

Tveir garðar voru verðlaunaðir að þessu sinni; Óseyri við Eyrarbakka en þar búa Íris Böðvarsdóttir og Karl Þór Hreggviðsson. Garðurinn er leynd perla en sérstaða hans er staðsetning í sveit og endurnýting fjölda hluta sem fengið hafa nýtt líf í líflegum og skemmtilegum sælureit. Hinn garðurinn er við Lyngheiði 17 á Selfossi og þar búa Agnes Ósk Snorradóttir og Björgvin Guðmundsson. Þar er afar snyrtilegur og fallegur garður með fjölbreyttum gróðri sem mikil vinna og rækt verið lögð í með metnaðarfullu starfi.

Opinn garður verður á Óseyri kl. 16 til 19 á þriðjudag og í Lyngheiði 17 kl. 17 til 19 á fimmtudag.

Fallegasta fyrirtækið er Nytjamarkaðurinn við Gagnheiði 32 á Selfossi en þar hefur verið lögð mikil vinna í að hafa alltaf snyrtilegt og fallegt, auk þess sem farnar hafa verið ótroðnar slóðir í samstarfi við aðra, til dæmis með því að setja upp frískáp fyrir utan húsið.

Þá fengu Netpartar ehf í Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi viðurkenningu fyrir framlag til umhverfismála en fyrirtækið er samfélagslega ábyrgt fyrirtæki þar umhverfismál og gæði eru í fyrirrúmi. Opið hús verður í Netpörtum næstkomandi föstudag kl. 14 til 17 í tilefni af viðurkenningunni.

Á föstudag var fallegasta gatan í sveitarfélaginu verðlaunuð en eins og áður hefur verið greint frá var það Suðurengi á Selfossi sem fékk viðurkenninguna.

Fyrri greinBrúarhlaup og hjólreiðar í frábæru veðri
Næsta greinRagnarsmótið hefst í kvöld