Tveir fimmtán ára handteknir

Tveir fimmtán ára drengir voru handteknir í gær fyrir líkamsárás í Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Drengirnir fóru inn í Sunnulækjarskóla en sjálfir eru þeir í Vallaskóla, og gengu þar í skrokk á nemanda skólans. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, segir að drengurinn hafi ekki slasast að ráði og stóð árásin stutt yfir. Málið er tekið mjög alvarlega af lögreglunni.

Þegar drengirnir flýðu vettvanginn ýttu þeir við kennara sem þeir mættu svo hann féll við og rak höfuðið í vegg og svo gólfið. Lögreglan var fljót á staðinn, handsamaði drengina við skólann og voru þeir færðir á lögreglustöðina þar sem skýrsla var tekin af þeim. Málið er unnið í samstarfi við barnaverndaryfirvöld.

Árásin er enn í rannsókn en drengirnir tveir eru sakhæfir þrátt fyrir að vera á grunnskólaaldri.

Fyrri greinSumarlandið selst best
Næsta greinNeyðarstigi aflétt