Tveir bekkir heima vegna smits í Hrunamannahreppi

Á leið í skimun í bílakjallara Kjarnans á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Börnum í 4. og 5. bekk Flúðaskóla var haldið heima í dag í varúðarskyni sem og starfsmönnum í þessum bekkjum, þar sem foreldri barns í skólanum greindist með COVID-19 í gær.

„Ég fékk tilkynningu seint í gærkvöldi um að eitt foreldri hér væri smitað. Fjórði og fimmti bekkur eru samkennsluhópar og því ákváðum við að halda þeim heima í dag, sem og þeim starfsmönnum sem komu að bekkjunum á mánudag, þegar nemandinn var hér síðast. Að öðru leyti hefur skólahald verið með hefðbundnu sniði,“ sagði Jóhanna Lilja Arnardóttir, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.

„Þeir sem tengjast þessu foreldri fóru í skimun í dag og ég bíð eftir að fá niðurstöður áður en frekari ákvarðanir verða teknar hjá okkur í skólanum,“ bætir Jóhanna við.

Smitrakningarteymi almannavarna vinnur nú að því að ná utan um málið.

Fyrri greinMargrét ráðin hjúkrunarstjóri á Selfossi
Næsta greinLögreglan rannsakar grjótkast frá vörubíl