Tveimur fjórhjólum stolið

Tveimur fjórhjólum var stolið úr gámi við Bolöldu á tímabilinu 14. til 18. maí síðastliðinn.

Á gámnum var öflugur lás sem hafði verið skorinn í sundur með skurðarskífu. Hjólin eru af gerðinni Yamaha Grizzly 700cc, græn og voru á stærri dekkjum en gengur og gerist.

Um helgina var 200 til 300 lítrum af dísilolíu stolið af vörubifreið í eigu Lýsis. Bifreiðin stóð við Hafnarskeið í Þorlákshöfn.

Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um þessa þjófnaði að hafa samband í síma 480 1010.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að fimmtán ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni. Einn var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur. Nokkrir voru kærðir fyrir ýmiss konar umferðarlagabrot eins og t.d. fyrir að tala í farsíma í akstri.