Tveimur bjargað úr Fagrafelli í nótt

Frá aðgerðum björgunarsveitanna í morgun. Ljósmynd/Landsbjörg

Klukkan hálf tvö í nótt barst hjálparbeiðni frá tveimur einstaklingum sem voru að klífa Fagrafell á Hamragarðaheiði við Eyjafjallajökul.

Annar þeirra hafði fallið niður nokkurn spöl og hinn varð við það í sjálfheldu og komst ekki niður til þess sem féll.

Björgunarsveitir af Suðurlandi voru boðaðar á hæsta forgangi í verkefnið, og var fyrsta björgunarfólk komið á slysstað um klukkan 2:20.

Slysið varð í miklu brattlendi og erfitt var fyrir björgunarfólk að komast að slysstaðnum. Sérhæfðir undanfarar í fjallabjörgun voru kallaðir út frá höfuðborgarsvæðinu, ásamt því að þyrla Landhelgisgæslunnar kom frá Egilsstöðum.

Tryggja þurfti björgunarfólk á svæðinu með siglínum og færa þann sem slasaðist, svo öruggara væri að komast að þeim sem var fastur ofar í hlíðinni. Hinn slasaði var svo hífður um borð í þyrlu.

Björgunarfólk er nú að ganga frá á slysstað og halda niður af fjallinu.

Fyrri greinErtu sjóðfélagi í Almenna Lífeyrissjóðnum?
Næsta greinSjálfbær rekstur í Árborg