Tveggja milljón króna stjórnsýsluúttekt í Ölfusi

Bæjarráð Ölfuss samþykkti á fundi sínum í gær að fela RR ráðgjöf að annast stjórnsýsluúttekt fyrir sveitarfélagið og fól bæjarstjóra að hefja þá vinnu sem undir hana fellur.

Fyrir fundinum lágu kostnaðaráætlanir frá tveimur aðilum vegna úttektarinnar, Capacent og RR ráðgjöf. Samþykkt var að fela RR ráðgjöf verkið en kostnaðurinn við það liggur á milli 1,8 og 2,1 milljónum króna.

Bæjarráð hefur hug á að kanna þörfina á breytingum á skipuriti og verkferlum meðal annars með það fyrir augum að bæta þjónustu, gera rekstur skilvirkari og skýra ábyrgðarsvið. Leitast verði við að kanna hvort ábyrgð og hlutverk stjórnenda og starfsmanna sé rétt fyrir komið eða hvort breytinga sé þörf. Samhliða fari fram athugun á boðleiðum og virkni skipulagseininga.

Þá verði sérstaklega greint hvernig ferlum, fjármálum og öðrum björgum er beitt til að veita þjónustu sem og hvort eftirliti með framkvæmdum og öðrum rekstri sé sinnt á ábyrgan og sem hagstæðastan hátt.

Þrúður Sigurðardóttir, varamaður O-listans í bæjarráði, samþykkti að farið yrði í úttektina en tók ekki afstöðu til þeirra aðila sem lögðu inn tilboð þar sem gögn bárust ekki inn í fundargátt fyrir tilskilinn tima.

Fyrri greinLögreglan leitar að Jónasi Þór
Næsta greinNýrri bók Guðmundar fagnað í Húsinu