Tveggja milljarða króna framkvæmd á Edenreitnum

Framkvæmdir eru að hefjast á gamla Edenreitnum í Hveragerði en síðastliðinn miðvikudag var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri íbúðarbyggð á reitnum.

Um er að ræða samtals 77 íbúðir í tveggja og þriggja hæða húsum. Íbúðirnar eru á bilinu 55 til 95 fermetrar og gætu þær fyrstu verið afhentar næsta haust.

„Þetta gæti verið afar áhugaverður kostur fyrir bæði þá sem vilja minnka við sig og barnafólk sem vill komast í sveita- og gróðursæluna í Hveragerði en vera örstutt frá höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Gylfi Gíslason, forstjóri JÁVERK, í samtali við sunnlenska.is.

JÁVERK sér um framkvæmd verksins fyrir Suðursali ehf. Byggingarnar eru hannaðar af T.ark. Um er að ræða stærsta íbúðaverkefni sem unnið hefur verið í Hveragerði umfangið er um 2 milljarðar króna.

Að sögn Gylfa hefst jarðvinna og gatnagerð á næstu vikum og unnið er að hönnun íbúðanna á meðan.

Skipulagið gerir ráð fyrir að halda í sögu Eden og er því gert ráð fyrir gróðri og gróðurhúsum á reitnum.

Fyrri greinSigurður Torfi: Tækifærin í náttúrunni
Næsta greinGuðfinna Gunnars: Mjúku málin eiga að vera hörðu málin