Tveggja metra djúpt vatn á veginum

Sprengisandsvegur F26 er ennþá lokaður en u.þ.b. 8 km sunnan við skála Ferðafélagsins í Nýjadal er um tveggja metra djúpt vatn sem lokar veginum.

Gunnar Njálsson, landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs í Nýjadal, ók norður Sprengisand í gær til þess að kanna aðstæður ásamt Guðmundi Árnasyni, sem einnig starfar fyrir Vatnajökulsþjóðgarð.

„Það hafa verið mikil snjóalög og bleyta á veginum hingað til, oft frost á nóttinni og lágt hitastig yfir daginn þannig að bráðnunin er lítil. Um 8 km sunnan við skálana komum við að stóru vatni sem liggur yfir veginn og stór og þykkur skafl stíflar allt afrennsli,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is.

Þeir mældu dýptina á vatninu og er hún líklega um tveir metrar þar sem dýpst er.

„Samkvæmt okkar upplýsingum verður heflað norður í Versali í dag og síðan norður Sprengisandsveg að Nýjadalsskálum. Vegagerðin að norðan er að huga að byrja að hefla upp úr Bárðardal í dag, þannig að líklega verður búið að hefla allan Sprengisandsveg um næstu helgi og þá verður beðið eftir að vegastæðið þorni,“ segir Gunnar og bætir við að það geti tekið nokkra daga.

„Þetta er allt miklu seinna á ferðinni í sumar enda búið að vera óvenju kalt. Í fyrra kom ég í Nýjadal þann 13. júní en þá var óvenju snjólétt,“ segir Gunnar.

Fyrri greinFyrstu sigrar Jóhanns og Ívars
Næsta greinFiskur á í fyrsta kasti