Tveggja ára barn flutt með þyrlu á slysadeild

Um hádegi í gær féll tveggja ára gamalt barn úr stiga upp á svefnloft í sumarbústað í Fljótshlíð. Talið er að fallið hafi verið rúmur metri.

Barnið hlaut höfuðáverka og þótt rétt að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar til að flytja barnið á slysadeild Landspítalans. Upplýsingar um líðan barnsins liggja ekki fyrir á þessari stundu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Þar kemur einnig fram að erlend kona hlaut opið beinbrot á úlnlið við fall í hálku við Gullfoss í liðinni viku og önnur erlend kona úlnliðsbrotnaði við Jökulsárlón.

Þá var lögregla var kölluð til í þrettán umferðaróhöpp í vikunni sem leið. Engin alvarleg slys urðu vegna þeirra en talsvert eignatjón.

Fyrri greinÁlma á Klausturhólum rýmd vegna reyks
Næsta greinBraut vopnalög með rafbyssu-vasaljósi