Tvær Lindur í Studio Sport

Linda Björk og Linda Rós í Studio Sport á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend

Linda Björk Hilmarsdóttir gerðist nú um mánaðamótin einn af eigendum verslunarinnar Studio Sport á Selfossi en Linda Rós Jóhannesdóttir og Gylfi Birgir Sigurjónsson stofnuðu fyrirtækið árið 2017 og verður það því 6 ára á árinu.

Aðspurð hvernig henni líst á að fá meðeiganda og nöfnu í búðina segir Linda Rós að það verði örugglega ruglingslegt fyrir viðskiptavini.

„Að minnsta kosti svona til að byrja með en þetta verður bara skemmtilegt. Það er gott að fá inn meðeiganda sem trúir á verkefnið eins og við höfum gert síðustu sex ár. Við ætlum að halda áfram að þjónusta bæjarbúa með flottum og vönduðum vörum. Það þýðir samt ekkert að hringja og biðja um Lindu, það þarf að nefna sérstaklega eftirnafnið, Björk eða Rós,” segir Linda Rós og hlær.

Tekur tíma að þekkja skóstærðir bæjarbúa
Linda Björk flutti fyrir rúmlega ári á svæðið og hefur verið að skoða í kringum sig hvað væri skemmtilegt að gera á Selfossi og úr varð þetta óvænta og skemmtilega samstarf við Lindu Rós ásamt öðrum verkefnum. Linda Björk hefur undanfarin ár kennt markþjálfun en hún er vottaður PCC markþjálfi.

„Ég vil koma inn í þennan flotta rekstur til að halda áfram þessari góðu vegferð sem Gylfi og Linda hafa verið á. Við ætlum að bæta þjónustuna í netverslun okkar og við erum að fá ný merki fljótlega sem gaman verður að kynna fyrir bæjarbúum. Það mun þó taka mig einhvern tíma að þekkja skóstærðir bæjarbúa eins og ég hef upplifað að Linda Rós þekki í mörgum tilfellum,” segir Linda Björk.

Fyrri greinSelfosskonur fallnar
Næsta greinSveinn Andri tekur slaginn með Selfyssingum