Tvær bækur Sæmundar tilnefndar

Tvær bækur frá bókaforlaginu Sæmundi á Selfossi hlutu í gær tilnefningar til verðlauna, annars vegar Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2015 og hins vegar Íslensku þýðendaverðlaunanna.

Tilnefningarnar á Sæmundur bræðrum að þakka, þeim Stefánssonum Jóni Halli og Hermanni. Hermann er tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Leiðin út í heim sem er magnað og margslungið framhald af Palla sem var einn í heiminum.

Jón Hallur hlaut tilnefningu til þýðingarverðlauna fyrir stórvirkið Spámennina í Botnleysufirði eftir Kim Leine.

Tilnefningarnar voru tilkynntar við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum í gær. Bókmenntaverðlaunin verða afhent á Bessastöðum um mánaðarmótin janúar/febrúar en þýðendaverðlaunin verða afhent á Gljúfrasteini á alþjóðlegum degi bókarinnar, þann 23. apríl næstkomandi.

„Gærdagurinn var afar stór dagur í sögu bókaforlagsins Sæmundar. Þá voru tvær bækur okkar tilnefndar til verðlauna sem er mikill heiður og mikill áfangi,“ segir á Facebooksíðu Sæmundar.

Fyrri greinBorgardætur í Listasafninu
Næsta greinHamar varð undir gegn Val