Tvær líkamsárásir um helgina

Ungur karlmaður var sleginn nokkrum hnefahöggum í höfuðið fyrir utan skemmtistaðinn Frón á Selfossi aðfaranótt laugardagsins.

Árásarþolinn rotaðist og var fluttur á heilsugæslustöðina á Selfossi. Skoðun læknis leiddi í ljós að maðurinn reyndist óbrotinn.

Þá gerðist það á Laugarvatni um helgina að ölvuð kona kastaði glasi í andlit karlmanns. Glasið brotnaði þegar það skall í andliti mannsins og hann skarst en hann taldi ekki ástæðu til að leita til læknis vegna þess.

Í dagbók lögreglu kemur fram að engu að síður flokkist árás af þessu tagi undir alvarlega líkamsárás þar sem hending ein ræður afleiðingum.

Fyrri greinBrjálað að gera hjá lögreglu og sjúkraflutningamönnum
Næsta greinVestfirska gefur út „Undir hraun“