Tvær líkamsárásir á Selfossi

Tvær líkamsárásir áttu sér stað á Selfossi um helgina við skemmtistaðinn 800 Bar við Eyraveg.

Í fyrra tilvikinu upphófust hópslagsmál aðfaranótt laugardags og lyktaði þeim með því að maður fékk bjórflösku í andlitið. Hann skarst illa og var komið undir læknishendur.

Seinni árásin var aðfaranótt sunnudags þar sem maður var sleginn í höfuðið og féll hann í götuna. Honum var komið til læknis.

Bæði málin eru í rannsókn hjá lögreglunni á Selfossi að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.