Tvær bílveltur í morgun

Tvö keimlík hálkuslys urðu í morgun með stuttu millibili í Kömbum og við Stokkseyri.

Klukkan rúmlega sjö í morgun valt bíll útaf Suðurlandvegi í Kömbum og hafnaði á hliðinni. Kona sem ók bílnum komst ekki út af sjálfsdáðum og mætti slökkviliðið í Hveragerði á staðinn, rétti bílinn við og beitti klippum svo hægt væri að ná konunni út. Hún var flutt á slysadeild í Reykjavík með minniháttar meiðsli.

Rúmum klukkutíma síðar valt jeppi á Gaulverjabæjarvegi, rétt vestan við Stokkseyri. Bíllinn stöðvaðist á bílstjórahliðinni utan vegar. Slökkviliðsmenn frá Selfossi og Stokkseyri réttu bílinn við og var hægt að ná ökumanninum út án þess að beita klippum. Eldri karlmaður sem ók bílnum var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar.