Tuttugu og átta herbergi fyrir þrjúhundruð milljónir króna

Ráðgert er að byggja 28 ný herbergi við Hótel Selfoss á þessu ári, ofan vestari álmu hótelsins. Framkvæmdastjórinn segir stefna í gríðarlega gott sumar.

„Teikningar og annað er nú í ferli hjá Sveitarfélaginu Árborg og á því að vera lokið 10. apríl. Verði niðurstöðurnar jákvæðar þá stefnum við á að hefja framkvæmdir strax í vor og að fjórða hæðin verði tilbúin til notkunar næsta haust með tuttugu og átta glæsilegum herbergjum með besta útsýni landsins,“ segir Ragnar Bogason, framkvæmdastjóri Hótels Selfoss.

Tuttugu og fjögur herbergi verða tuttugu og fjórir fermetrar að stærð og fjögur þeirra verða þrjátíu og þrír fermetrar. Ragnar segir kostnað við framkvæmdina vera áætlaðan á milli tvö- og þrjúhundruð milljónir króna.

Hann segir útlitið fyrir sumarið gott. „Já, það er allt yfirfullt hjá okkur og miklu meira en það, það stefnir í gríðarlega gott sumar,“ segir hann.

Um þessar mundir eru fastráðnir starfsmenn hótelsins þrjátíu talsins en alls eru starfsmennirnir um eitthundrað með skólafólkinu, sem starfar þar um helgar.