Tuttugu hrossum bjargað úr húsi

Mildi var að ekki fór verr þegar eldur kom upp í hesthúsi á hrossabúgarði fyrir utan Hvolsvöll um klukkan 10:30 í morgun.

Vinnumaður var fyrir tilviljun staddur í hesthúsinu þegar eldur kom upp í rafmagnstöflu. Hann brást skjótt við, hleypti hrossunum í húsinu út, sló út rafmagninu og náði þannig að slökkva eldinn. Lögreglan á Hvolsvelli segir ljóst að ef enginn hefði verið í húsinu hefði farið illa.

Tuttugu hross voru í húsinu en þeim varð ekki meint af. Maðurinn leitaði sér aðstoðar á heilsugæslunni á Hvolsvelli en hann var með snert af reykeitrun.

Slökkviliðið Brunavarna Rangárþings á Hvolsvelli var kallað út en liðsmenn þess þurftu ekki að athafna sig á vettvangi.

Fyrri greinLeitað að veiðimönnum í Hveragerði
Næsta greinÖskuryk veldur villuboðum frá reykskynjurum